Um Gæðamat háskóla

Gæðamat háskóla hefur allt frá árinu 2010 sinnt óháðu ytra gæðamati íslenskra háskóla með það að leiðarljósi að efla gæði og stuðla að stöðugum umbótum í háskólakerfinu á Íslandi.  

Meðal helstu hlutverka Gæðamats háskóla er að:  

  • móta rammaáætlun um eflingu gæða í íslenskum háskólum og þróa hana í takt við breytingar sem verða á háskólakerfinu, bæði innan lands og utan,  
  • framkvæma reglubundnar stofnunarúttektir í því markmiði að tryggja að háskólar á Íslandi sinni innra gæðamati og vinni að umbótum á allri starfsemi sinni,  
  • stuðla að aukinni þekkingu á sviði gæðamála,  
  • annast aðrar úttektir að beiðni íslenskra yfirvalda eða annarra hagaðila.  

Gæðamat háskóla starfar samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum um sjálfstæði gæðamatsstofnana og hefur fullt sjálfræði yfir starfsemi sinni. Starfsemin fer því fram án nokkurra afskipta háskólastofnana, stjórnvalda eða annarra hagaðila. Um leið er áhersla lögð á samráð við hagaðila á fjölbreyttum vettvangi, s.s. samstarfsnefnd um gæðamál háskóla, ráðgjafarnefnd um mat á rannsóknum og Landssamtök íslenskra stúdenta. Þessir hópar gegna mikilvægu hlutverki í frekari þróun og umbótum á gæðastarfi í íslensku háskólasamfélagi.  

Gæðamat háskóla byggir starf sitt á stöðlum og nýjustu viðmiðum sem tíðkast í gæðastarfi á Evrópska háskólasvæðinu, auk þess að uppfylla innlendar kröfur um gæðastarf í háskólum.