Grunngildi

  1. Ábyrgð háskóla. Háskólar bera sjálfir höfuðábyrgð á gæðum starfsemi sinnar. Þau gæði verða aðeins tryggð og efld fyrir tilstilli starfshátta og athafna skólanna sjálfra, hvort sem lýtur að námi og kennslu, rannsóknum og nýsköpun eða tengslum við samfélagið. Þess vegna er það eitt af meginhlutverkum Gæðamats háskóla að styðja háskólana í því starfi og stuðla að því að þeir geti gegnt skyldum sínum hvað varðar gæðastjórnun og umbætur á sjálfstæðan hátt.  
  2. Stöðugar umbætur. Rammaáætlunin byggir á umbótamiðaðri nálgun og hefur verið þróuð til þess að styðja við gæðastarf háskólanna, bæði í þeim almenna tilgangi að tryggja gæði og til að stuðla að stöðugum umbótum í allri starfsemi þeirra.  
  3. Þátttaka nemenda. Nauðsynlegt er að nemendur eigi hlutdeild í þróun háskólamenntunar og rammaáætlunin gerir því ráð fyrir virkri þátttöku þeirra í innra og ytra gæðastarfi. Áætlunin tekur að þessu leyti til allra stúdenta, óháð líkamlegri og andlegri heilsu, kyni, kynhneigð, uppruna, þjóðerni, trú, búsetu eða fjárhagsstöðu.  
  4. Alþjóðleg og íslensk sjónarmið. Rammaáætlunin á sér sterkar rætur í íslenskum aðstæðum. Íslenskir háskólar gegna mikilvægu hlutverki á landsvísu en þjóna jafnframt nærsamfélagi sínu hver með sínum hætti. Áætlunin og háskólarnir sem undir hana heyra horfa einnig út á við, þar sem háskólamenntun fer í auknum mæli fram í erlendu samstarfi. Þar að auki tekur áætlunin mið af evrópskum og alþjóðlegum viðmiðum, þ.m.t. nýjustu útgáfu af Evrópskum viðmiðum um gæðamat háskóla (ESG) hverju sinni, og þeim starfsháttum sem tíðkast á Evrópska háskólasvæðinu (EHEA).  
  5. Sjálfstæði og samstarf. Gæðamat háskóla er sjálfstæður matsaðili og stýrir rammaáætluninni óháð hvers kyns sérhagsmunum og án afskipta hagaðila. Náið samtal við hagaðilana er þó um leið lykilatriði í þróun áætlunarinnar, og þannig felur hún samtímis í sér samráð og sjálfstæði.  
  6. Gagnsæi. Áhersla er lögð á gagnsæi með því að gera allt það efni aðgengilegt sem ekki er bundið trúnaði. Þá leitast stofnunin við að gefa út skýrar leiðbeiningar og annað stuðningsefni, viðhalda reglubundnu samtali við háskólasamfélagið, og veita háskólunum stuðning með ráðstefnuhaldi og öðrum viðburðum.