Rammaáætlun

Rammaáætlun um eflingu gæða í íslenskum háskólum varð til í nánu samtali við íslenska háskólasamfélagið. Áætlunin byggist á umbótamiðaðri nálgun og markmið hennar er að gera íslenskum háskólum kleift að tryggja og auka gæði starfsemi sinnar. Íslenskir háskólar bera sjálfir ábyrgð á gæðum starfsemi sinnar, en Gæðamat háskóla annast ytra gæðamat á sömu starfsemi.  

Meginmarkmið áætlunarinnar er að knýja fram umbætur í íslenskum háskólum, afla upplýsinga og skapa þekkingu um gæði í háskólastarfi. Þetta er gert annars vegar með því að styðja háskólana til þess að koma auga á góða starfshætti og helstu áskoranir, og hins vegar með því að leggja fram tillögur um það sem betur má fara. Kjarni áætlunarinnar er fólginn í þessari umbótamiðuðu nálgun, sem gerir háskólunum kleift að standa undir ábyrgð sinni gagnvart samfélaginu og tryggja um leið gæði og gagnsæi.